Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands, segir tengslin á milli manns og iðju órjúfanleg. „Iðja er öllum manneskjum nauðsynleg og frá örófi alda hefur líf okkar einkennst af þörf til að stunda iðju af margvíslegu tagi. Rannsóknir sýna glöggt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeim viðfangsefnum sem eru því mikilvæg og hafa jákvæðan tilgang, þá bitnar það á heilsu og líðan.“
Það sé sérstaklega brýnt að vera vakandi fyrir þessum mikilvægu þörfum um þessar mundir. „Á tímum heimsfaraldurs, með tilheyrandi sóttvarnaaðgerðum og efnahagsþrengingum blasir það einmitt við okkur hversu áríðandi er að geta viðhaldið daglegum venjum eins og að stunda vinnu eða skóla, hitta fjölskyldu og vini og sinna tómstundaiðju og áhugamálum. Hætta er á að fólk einangrist félagslega og það hefur neikvæð áhrif á geðheilsu. Á tímum farsóttar þurfum við því öll að „endurhugsa hversdaginn“,“ segir Þóra.