Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð er fjölbreytt úrræði sem veitir gagnreynda meðferð (evidence based practice) þar sem lögð er áhersla á að bæta samskipti og tengsl við aðra, þar sem tekið er mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar og velferð hennar höfð að leiðarljósi. Felur það meðal annars í sér einstaklings-, fjölskyldu- og hjóna/parameðferð þar sem metið er hverju sinni í samráði við þann sem leitar eftir meðferð hvenær og hvort aðrir fjölskyldumeðlimir eða ættingjar taki beinan þátt í meðferðinni.
Einstaklingur getur því byrjað meðferð en óskað síðar eftir þátttöku (stjúp/fóstur) foreldra, systkina, ömmu/afa og svo framvegis.

Góð tengsl hafa forvarnargildi varðandi félagslega, líkamlega og andlega líðan. Samskipti innan fjölskyldna skipta oft miklu máli þegar fólk lendir í áföllum eða veikindum og nefnir fólk fjölskylduna oft sem mikilvægasta stuðninginn í lífinu. En óhjálpleg samskipti/samskiptamynstur, hefðir eða venjur sem erfitt er að brjóta upp geta skapast þegar tekist er á við t.d. skilnað, sorgarferli, ágreining, kynlífsvandamál, líkamleg og andleg veikindi og ýmiskonar áföll.
Meðferðin miðar að því að aðstoða fólk við að finna árangursríkar leiðir til að leysa vanda og bæta líðan fjölskyldunnar í heild

Fjölskyldumeðferð

Ósk um þjónustu

Rósa Gunnsteinsdóttir - Iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur

Rósa Gunnsteinsdóttir

Iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur

Rósa Gunnsteinsdóttir er iðjuþjálfi og fjölskyldufræðingur sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu af vinnu með börnum, fullorðnum og fjölskyldum.

Rósa hóf störf 2009 sem iðjuþjálfi í  Síðuskóla á Akureyri eftir að hafa lokið iðjuþjálfanámi við Háskólann á Akureyri. Árið 2010 hóf Rósa starf á geðdeild Landspítalans, fyrst á Barna- og unglingageðdeild til loka árs 2016 en þá hóf hún störf á geðendurhæfingardeild Kleppi og er þar starfandi í dag.
Hún hefur meðal annars unnið í FMB-teymi LSH og Fyrirburaeftirlits-teymi LSH en er í dag í átröskunarteymi LSH.

Á árunum 2013 – 2022 kom Rósa að aðstandenda námskeiðum fyrir börn og unglinga hjá Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra, ýmist sem leiðbeinandi eða í afleysingu. 

Rósa útskrifaðist sem fjölskyldufræðingur 2016 og lauk MA í fjölskyldumeðferð 2021. Hún fékk staðfestingu frá Embætti Landlæknis til að starfa sjálfstætt 2017 og hefur frá þeim tíma unnið sem verktaki á Domus Mentis Geðheilsustöð sem fjölskyldufræðingur og iðjuþjálfi.
Árið 2018 fékk Rósa réttindi til að halda PEERS® námskeið í félagsfærni og hefur reglulega haldið PEERS námskeið fyrir 18 ára og eldri á LSH auk þess að leysa af á PEERS námskeiðum fyrir börn og unglinga.