Þann 12. mars síðastliðinn var haldinn aðalfundur Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ).
Fundurinn samþykkti ályktun þar sem áliti umboðsmanns Alþingis varðandi hvað teljast nauðsynleg hjálpartæki fyrir fatlað fólk var fagnað:
„Aðalfundur IÞÍ 2021 fagnar sérstaklega nýlegu áliti umboðsmanns Alþingis um að túlkun úrskurðarnefndar velferðarmála á því að hjálpartæki sé ekki nauðsynlegt ef sjúkratryggð manneskja kemst af án þess, þrengi með fortakslausum hætti að þeim tilgangi og undirliggjandi réttindum sem lög nr. 112/2008 ná yfir.
Iðjuþjálfar hér á landi hafa árum saman barist fyrir því að fatlað fólk á öllum aldri fái sanngjarna styrki til að kaupa hjálpartæki sem efla iðju þess og þátttöku í samfélaginu, auka lífsgæði og bæta heilsu.
Álitið er afar þýðingarmikið í ljósi mannréttinda og þeirrar kröfu að allt fólk njóti jafnra tækifæra til iðju sem er því mikilvæg í daglegu lífi.“
Fundurinn vel sóttur
Aðalfundur iðjuþjálfa var rafrænn á Zoom og vel sóttur miðað við aðstæður. Hefðbundin aðalfundarstörf voru á dagskrá.
Kosið var í stjórn og nefndir auk þess sem ný heildarlög félagsins voru samþykkt. Nýju lögin fela í sér töluvert breytt skipulag á starfsemi félagsins.
Formaður IÞÍ er Þóra Leósdóttir og hefur hún gegnt formennsku síðan 2019.
Þóra var sjálfkjörin til næstu tveggja ára þar sem ekki barst mótframboð til embættisins.