Reynslusaga
Facebook
Twitter
LinkedIn
Pinterest
Email

Fjarkennsla í félagsfærni „Peers“

Reynslusaga frá móður 11 ára stúlku sem var á Fjarkennslu í félagsfærni námskeiðinu PEERS.

Áður en dóttir mín fór á PEERS námskeið var hún vinafá. Við vorum ný fluttar í nýtt bæjarfélag og hún átti erfitt með að komast inn í hópinn eða gaf krökkunum ekki tækifæri á sér.  Hún var óörugg að biðja vini um að leika, hvort sem það var strax eftir skóla eða um helgar.  Hún var feimin í skólanum og sagði fátt t.d. í frímínútum og var oft ein. Eins kom hún yfirleitt ein heim eftir skóla.  Hún vildi heldur ekki taka þátt í félagskvöldum eða uppákomum á vegum skólans, svo sem spilakvöld, diskó eða því um líkt. 

Eftir að hún byrjaði á PEERS lærði hún samtalstækni, það er að spjalla um áhugamál og sýna hinum áhuga, hvort sem það er með því að hringja í vin eða spjalla í skólanum. Hún fór að vera öruggari með að tjá sig og þannig gefa færi á sér.  Það sem er svo frábært við þetta námskeið eru allar heimaæfingarnar, það er magnað hvað það hjálpar til að æfa sig í félagsfærni heima við foreldra sína.  Ég fór reyndar ekki að sjá mun á henni fyrr en eftir nokkur skipti, og þá sérstaklega blómstraði hún þegar kom að því að bjóða vin í heimsókn. 

Smátt og smátt jókst sjálfstraustið, hún kann núna að velja sér rétta vini, koma sér út úr aðstæðum sem eru óþægilegar, taka því ekki persónulega ef henni er strítt og svo ótal margt.

Mér finnst ég hafa eignast nýtt barn, hún kemur aldrei lengur ein heim eftir skóla, eða hreinlega kemur ekki heim því hún er hjá vinkonu. Hún veit núna  hvernig hún á að spyrja um að leika og stelpurnar sækjast í hana. Og hún er farin að mæta á alls kyns viðburði, þora að blanda geði við nýja krakka og kynnast þeim og leyfa þeim að kynnast sér. Þannig hefur sjálfstraustið aukist og hún er miklu glaðari og jákvæðari.

Mæli svo hundrað prósent með þessu námskeiði, ég sjálf hef líka lært helling og mun klárlega nýta mér það í samskiptum við fólk.