Strákurinn minn sem er bara 10 ára er með áfallastreitu, kvíða og ADD og hefur því átt mjög erfitt með að leika við aðra krakka og þá sérstaklega annars staðar en heima hjá okkur. Það er fullt af krökkum sem vilja leika við hann en hann vill ekki leika við þau. Hann hefur ekki þolað óvissuna um hvað þau séu að fara að gera og að leikurinn gæti tekið óvænta stefnu.
Mjög fljótlega eftir að hann byrjaði á PEERS námskeiðinu fórum við að sjá mun á geðslaginu hjá honum, hann var glaðari og jákvæðari þó svo hann væri ekki tilbúinn að fara að leika strax. Við vorum í góðu samstarfi við foreldra bestu vina hans þegar kom að því að skipuleggja hittinga og gengu þeir mjög vel og vinir hans tilbúnir í að hjálpa honum.
Þegar námskeiðinu var lokið vorum við komin með allt annað barn í hendurnar. Hann var mikið glaðari og öruggari, farinn að leika á fullu (ekkert mál að segja honum að finna einhvern að leika við, áður þá fór hann bara að gráta úr kvíða). Hann leikur bæði heima og heima hjá vinum sínum, úti og á daginn og á kvöldin og tilbúinn að prófa að gera eitthvað nýtt sem vinirnir stinga upp á, hluti sem hann hefur algjörlega neitað að gera hingað til eins og að fara í fótbolta. Núna man hann ekki eftir því hvernig hann var því þetta er orðið honum svo eðlislægt.
Við vitum auðvitað að það geta komið bakslög eins og gerist hjá þeim sem eru með kvíða, en núna erum við komin með verkfærin í hendurnar og grípum þau þegar erfiðleikar banka upp á. Ég gæti ekki dásamað þetta námskeið og Guðrúnu meira og mæli með því við alla sem eiga við félagslega erfiðleika að stríða.
Það er enginn að fara að tapa á því að fara á námskeiðið, bara að græða.